Stækkaðu reksturinn þinn

Öll erum við með einhver norm. Það sem okkur finnst vera venjulegt, eðlilegt eða sanngjarnt. Eitt af skrítnari normunum mínum er að hella Malti út á grjónagraut. Þetta norm ættleiddi ég frá fjölskyldu minni sem segist hafa ættleitt þetta frá dönskum forfeðrum okkar. Þó hef ég aldrei heyrt um að Danir drekki Malt eða borði grjónagraut. Ég held frekar að einhver forfeðra minna hafi prófað þetta af brýnni nauðsyn og fundist þetta ágætt. Sem þetta er, ótrúlegt en satt.

Þegar nægilega mörg okkar deila sama normi, myndast norm innan samfélagsins. Meðal norma okkar Íslendinga er að fá sér pylsu með rúsínuputta eftir notalega sundferð, horfa á Kryddsíld og skaupið á gamlárskvöld, jólatónleikar, kaffidrykkja, skemmtidrykkja og peysufataskemmtanir ungmenna svo eitthvað sé nefnt.

Í þessari grein ætla ég hins vegar ekki að kafa mikið dýpra ofan í norm okkar Íslendinga, eins gaman og það er að velta þeim fyrir sér. Öllu heldur langar mig að skoða eitt norm sérstaklega. Það er normið að rukka og greiða Skrópgjöld.


Ef þú ert að lesa þetta hefur þú eflaust spurt þig hvort þú ættir að rukka skrópgjöld.

85.8% notenda Tímatals rukka eða vilja rukka skrópgjöld. 66.7% þeirra gera það þó ekki. Hvers vegna? 

"Auðvitað!" hugsar þú líklegast, eins og flestir notendur Tímatals gera. Af hverju ættir þú að tapa dýrmætum tekjum sem hefðu getað farið í sparibaukinn, eða í utanlandsferð með fjölskyldunni, á meðan sá sem skaðanum olli, skróparinn sjálfur, tapar engu? "Skrópgjöldin eru gott farartæki til að brúa ósanngirnina sem í dag hallar á mig." hugsar þú með þér í kjölfarið.

En hægt og rólega læðast efasemdir og áhyggjur um skrópgjöldin í huga þinn. Hvað mun viðskiptavinum finnast um að vera rukkaðir um skrópgjald? Verða þau sár? Munu þau mæta aftur?

Vegna þess að svo fáir rukka skrópgjöld í dag, ákveður þú að bíða með skrópgjöldin í bili - staðráðin þó að taka þau upp seinna meir.

En hingað til hefur sá tími ekki komið.

Þar til nú. Það er kominn tími á Nýja Normið.


Ég held að okkur sé óhætt að segja að skrópgjöld séu ekki hluti af normi okkar Íslendinga. Það er einmitt þess vegna sem þú heldur að viðskiptavinir þínir gætu orðið fýldir ef þau eru rukkuð um skrópgjöld - vegna þess að þau eru ekki vön því.

Ástæða þess að þetta er ekki hluti af norminu okkar er vegna þess að við höfum aldrei greitt skrópgjöld. Við höfum aldrei þurft að horfast í augu við þann skaða sem við erum að valda þegar við skrópum.

En fyrst skrópgjöld eru svo rökrétt og sanngjörn, hvers vegna hefur þetta aldrei náð fótfestu sem norm samfélagsins? Til þess að svara þeirri spurningu þurfum við að horfa til baka.

Hvers vegna vilja 14% af notendum Tímatals ekki rukka skrópgjöld? 

Eftir að símar urðu hluti af norminu, hefur eflaust orðið sprenging í tímabókunum. Fólk þurfti ekki lengur að verja eftirmiðdegi í að rölta niður á stofu til að bóka sér tíma, heldur gátu þau snúið takkahjóli símans og græjað það í hvelli.

Bókunum fjölgaði, og skipulagið niðri á stofu varð þéttara. En fleiri bókunum fylgdu fleiri skróp. Líklega voru skrópin meira að segja fleiri þá en þau eru í dag, enda engin áminningar-sms eða Noona-áminningar til að minna fólk á tímann. En samt rukkuðu þau ekki skrópgjöld. Ef þau hefðu gert það, væru skrópgjöldin blessunarlega hluti af norminu í dag, og Nýja Normið væri óþarfi.

En hvers vegna rukkuðu þau ekki skrópgjöld? Voru skoðanir þeirra á skrópgjöldum frábrugðin þínum? Örugglega ekki. Það var alveg jafn sársaukafullt að missa tekjur þá og það er í dag. Ég er viss um að þau vildu rukka skrópgjöld.

Öllu heldur finnst mér líklegt að þau hafi ekki rukkað skrópgjöld vegna þess að réttu tólin stóðu þeim ekki til boða. Á þeim tíma átti enginn snjallsíma. Bankar voru ekki rafrænir. Ef einhver ætlaði sér að rukka skrópgjöld, þá gat hann ekki búið til kröfu í heimabanka eða vistað kortaupplýsingar. Að rukka skrópgjöld var bara ekki raunhæft. Ekki nema þau gætu fengið hjálp frá hverfis-handrukkaranum, eða sinntu því hlutverki sjálf.

Þannig þau rukkuðu ekki skrópgjöld, og skrópgjöld urðu ekki hluti af norminu. Þar sem norm keyra áfram á skriðþunga hefur það norm sem varð til á gamla Íslandi haldið sér þar til dagsins í dag.


Það er kominn tími til að við breytum þessu normi  Það er kominn tími á Nýja Normið.

Nýja Normið er breytt viðhorf Íslendinga gagnvart skrópgjöldum. Okkur á öllum að finnast sjálfsagt að greiða skrópgjald ef við skrópum. Það á að vera eins sjálfsagt og það er að greiða fyrir þjónustuna ef hún var veitt. Þú eyddir jafn miklum tíma í bæði, ekki satt?

Að búa til Nýja Normið verður ekki auðvelt. Viðskiptavinum mun finnast fyrsta skrópgjaldið sem þau fá leiðinlegt. En hvað gerist þegar þau fá skrópkröfu í annað skiptið í röð þegar þau skrópa, í þetta skiptið frá öðrum þjónustuveitanda? Og svo í þriðja skiptið? Þá fara þau að skilja að þjónustuveitendur á Íslandi rukka skrópgjöld, og þeim ber að borga fyrir tímann sinn hvort sem þau mæta eða ekki. Í huga þessa einstaklings er að myndast nýtt norm.

Skróp kosta notendur Tímatals að meðaltali 150.000 krónur á ári. Er það í lagi?

Hvernig lítur heimurinn þinn út eftir að við búum til Nýja Normið saman?

Tekjurnar þínar aukast af tveimur ástæðum. Skrópum fækkar vegna þess að fólk vill ekki greiða skrópgjöld, og þegar skrópað er græðir þú samt. Eins og það á að vera.

Ef þú vilt búa til hjálpa okkur, þá þarft þú að byrja að rukka skrópgjöld. Ef við gerum það öll, gætum við búið til Nýja Normið á örstuttum tíma.

Einhver af viðskiptavinum þínum mun fara í fýlu, og finnast ósanngjarnt að þú rukkir sig um skrópgjald, og það er eðlilegt. Án þess að leyfa því að gerast munum við aldrei búa til Nýja Normið. Þegar það gerist máttu muna að þessi aðili er á byrjunarstigi þess að búa til Nýja Normið innra með sér, og þú ert að spila lykilhlutverk fyrir þig, kollega þína, og þjónustuveitendur um allt land til að koma í veg fyrir að hann skrópi aftur.


Við höfum aldrei verið í jafn góðri stöðu til þess að gera skrópgjöld að norminu og í dag. Með Skrópvörninni er hægt að senda skrópgjald með einum smelli. Með hjálp Noona getur þú fengið kennitölu viðskiptavinar við bókun, fengið hjá honum samþykki um að hann greiði skrópgjöld ef hann skrópar, og svo er hægt að minna á skrópgjaldið í áminningar-smsinu. Hvaða afsökun hafa viðskiptavinir okkar fyrir því að skrópa?

Á næstu dögum, vikum og mánuðum ætlum að reyna að sannfæra þjónustuaðila í öllum stéttum, um allt land, að byrja að rukka skrópgjöld. Við ætlum að byrja hjá þér.

Ef okkur tekst það, búum við til Nýja Normið.

Ert þú með?